Skammt frá Breiðdalsvík á Austfjörðum er Streitishvarf, sem einstaklega fallegur staður staður við sjávarsíðuna. Á Streitishvarfi er stutt en falleg gönguleið sem gefur innsýn í jarðsögu Austfjarða og sýnir hvað innskot og berggangar eru lífseig fyrirbæri. Fallegt útsýni er frá Streitisvita, sunnan Breiðdals, og öldugangur og brimrót sér um undirspilið alla daga ársins. Þetta er útivistarsvæði fyrir alla fjölskylduna en fara skal varlega nálægt sjávarklettunum. Þessi ganga er í Wapp-Walking app.

Í tengslum við gönguleiðina er sagt frá sorglegum atburði í leiðsögninni. Suður af Streitishvarfi er tindurinn Naphorn með Naphornsklettum neðan við. Í Naphornsklettum höfðu vorið 1784 þrír piltar úr Breiðdal komið sér fyrir í litlum hellisskúta til næturgistingar, þeir Eiríkur 21 árs, Jón 20 ára og Gunnsteinn 18 ára. Höfðu þeir allir átt erfiða æsku og flækst á milli bæja í hreppnum en urðu þarna ásáttir um að fara suður í Austur-Skaftafellssýslu og leggjast í flakk þar. Þeir rændu sér einhverju matarkyns af bænum Streiti. Jón vildi svo snúa aftur í Breiðdal en Eiríkur aftók það og endaði á því að drepa hann. Þeir eftirlifandi hættu svo við flakkið og sneru aftur í norðurátt en það var ekki fyrr en einhverjum vikum síðar sem var farið að yfirheyra þá um hvarf Jóns. Játuðu þeir við yfirheyrslurnar og var Gunnsteinn dæmdur til ævilangrar þrælkunarvinnu fyrir yfirhylmingu og lést eftir harðrétti í fangavist árið eftir. Eiríkur var dæmdur til dauða fyrir morðið og var hálshöggvinn á Mjóeyri tveimur árum síðar.