Séð frá Reykjavík virðist Kerhólakambur vera hæsti tindur Esjunnar. Svo er ekki en kamburinn er engu að síður tignarlegur og gönguleiðin falleg og skemmtileg og útsýni gott og upplagt að fara þessa leið með Wapp – Walking app. Farið er um sögusvið Kjalnesinga sögu þar sem aðalsöguhetjan, Búi Andríðsson, bjó að Esjubergi lengst af og er leiðin skemmtileg tilbreyting frá hinni vinsælu leið á Þverfellshornið auk þess er farið hærra og án þess að kljást við kletta í lokin. Þessi leið er fyrir alla í sæmilegu formi sem þola hækkunina. Hún er brött neðst í gilinu og þarf að gæta varúðar vegna grjóts sem göngufólk getur komið af stað og meitt þá sem eru neðar í skriðunum. Á veturna þarf að hafa jöklabrodda og ísöxi á þessari leið og kunnáttu til að fara með slíkan útbúnað. Til að komast á upphafsstað göngu er Vesturlandsvegurinn ekinn áleiðis upp á Kjalarnes og beygt inn afleggjarann austan við veginn upp að bænum Esjubergi.  Stikur eru ekki með reglulegu millibili og því er ráðlegt að hafa hlaðið leiðinni niður í Wappinu áður en farið er af stað.

 

 

Hinn írski Örlygur Hrappsson nam land milli Mógilsár og Ósvífurslækjar og reisti bæ undir Esju sem hann kallaði Esjuberg. Samkvæmt Landnámu kom Örlygur með kirkjuvið og klukku í farteskinu ásamt vígðri mold frá hinum helga Patreki biskup sem hafði fóstrað hann. Núorðið þekkir fólk helst heilagan Patrek vegna mikils veislu- og fagnaðardags sem við hann er kenndur eða St.Patricks day eins og hann heitir á ensku. Örlygur fór eftir leiðbeiningum fóstra síns og reisti kirkjuna við Esjuberg til heiðurs heilögum Kólumkilla sem var hafður í hávegum á Írlandi. Ljóst er að þetta mun hafa verið með fyrstu kirkjum á Íslandi. Ekki er vitað hversu lengi kirkja stóð á Esjubergi en líklega ekki lengur en fram á 13. öld. Búseta á Esjubergi var löngum erfið vegna skriðufalla sem fóru ítrekað yfir tún og jafnvel hús.

 

 

Eins og fyrr sagði er Búi Andríðsson aðalsöguhetjan í Kjalnesinga sögu sem er ein Íslendingasagna. Hann ólst upp að Esjubergi í fóstri ekkjunnar Esju. Hann átti í ýmsum illdeilum á Kjalarnesi og vó mann og annan og kom sér loks fyrir í helli í Laugargnípu sem var kallaður Búahellir. Var þar sæluvist enda hellirinn rúmgóður og þar var einnig baðlaug. Búi nam Ólöfu vænu á brott úr Kollafirði og fór með hana í hellinn. Fór hann svo utan en Ólöf sat í festum á meðan. Búi lenti í ástarævintýrum með Fríði Dofradóttur úti en á meðan ól Ólöf meybarn sem komið var í fóstur en svo var hún sjálf numin á brott af Kolfinni. Við heimkomuna skarst í odda og drap Búi Kolfinn en vildi svo ekkert með Ólöfu hafa vegna samskipta hennar við Kolfinn. Varð úr að Búi giftist Helgu Þorgrímsdóttur og bjó á Esjubergi eftir það og Ólöf giftist Helga nokkrum. Við sögulok er Jökull sonur Fríðar og Búa mættur til landsins og Búi vill glíma við drenginn til að kanna skyldleikann. Lýkur glímu þeirra þannig að Búi verður undir og deyr. Kjalnesinga saga er almennt ekki talin byggja á sönnum atburðum.