Prestastígur kallast leið sem hefur verið farin um aldir þó að nafnið sé ekki jafn gamalt. Eins og heitið gefur til kynna fóru prestar þessa leið þó að þeir hafi ekki verið jafn margir og vermennirnir sem fóru um stíginn til þess að fara í verbúðir í Höfnum, Hvalsnesi og víðar á Suðurnesjum. Þá þurftu Grindvíkingar að sækja verslun þessa leið um nokkurra áratuga skeið á 17. og 18. öld og hún hefur því verið nokkuð fjölfarin og sér þess víða merki. Landslagið er fjölbreytt og má sjá hraun á mismunandi aldursskeiðum. Það yngsta er Eldvarpahraun sem rann á fyrri hluta 13. aldar og gígarnir eru tilkomumiklir. Landrekið er einnig mjög sýnilegt og er Haugsvörðugjá dæmigerður sigdalur auk sprungna af ýmsum stærðum. Lagt er í hann skammt frá Kalmanstjörn og farið um Hafnarsand norðan megin við Presthól, ofan í sigdalinn upp af Stóru-Sandvík, þaðan hjá Haug og yfir Haugsvörðugjá og með rótum Sandfellshæðar og þar er hægt að nýta sér vegslóða sem er nánast samhliða gömlu götunni í hraunjaðri Eldvarpahrauns. Svo er gengið um hraunið og framhjá Rauðhóli og Eldvörpum og meðfram nokkrum smærri gjám og sprungum uns komið er niður vestan megin við golfvöllinn í Húsatóftum. Þetta er fjölbreytt og skemmtileg leið sem má fara allt árið og hún er bæði vörðuð og stikuð. Gætið þess þó á veturna að snjór getur fokið yfir sprungur og falið þær. Hér á eftir er gripið niður í hluta af fróðleiknum úr leiðarlýsingunni í Wapp-Walking app.

 

 

 

 

 

Á Prestastígnum liggur leiðin um Haugsvörðugjá þar sem flekaskilin milli Evrasíuflekans og Ameríkuflekans mjög skýr. Flekana rekur í sundur um 2 cm á ári og landið hér er því töluverðum breytingum háð. Ofan í Haugsvörðugjá er sigdæld eða sigdalur. Þekktasta sigdældin á Íslandi er Þingvalladældin á milli Almannagjár og Hrafnagjár með Þingvallavatni í lægri hluta dældarinnar. Leifar af gömlum gjallgígum eru við barminn á Haugsvörðugjá en hafa fyrir löngu misst lögun sína og líkjast mest hrúgöldum, hólum eða haugum og þaðan fær gjáin nafn sitt enda er hinn svonefndi Haugur rétt norðan við Prestastíginn á vestari brúninni.

 

 

 

 

Gígaröðin Eldvörp nær um 10 km frá norðaustri til suðvesturs. Prestastígur kemur að Eldvörpum í syðri hluta hennar þó að nokkrir gígar séu einnig sunnan hans. Þetta eru fallegir og heillegir gjall- og klepragígar og það er vel þess virði að víkja aðeins af stígnum til að skoða gígana betur í nærmynd en þó þarf að fara varlega og ganga vel um þessar náttúruminjar. Eldvarpagosið stóð með hléum í um áratug á fyrri hluta 13. aldar og náði hámarki sínu árið 1226. Hraunbreiðan úr gosinu er alls um 20 km².

 

 

Á seinni hluta 19. aldar var gert átak í vegagerð á Íslandi. Í sumum tilvikum var vegagerðin þegnskylduvinna og annars staðar var greitt fyrir vinnuna. Hér á Prestastígnum má helst sjá þess merki þar sem grjót hefur víða greinilega verið borið af götunni og þá hafa verið hlaðnar upp í nokkrar sprungur eins konar brýr. Hafið augun hjá ykkur þegar að þið farið yfir sprungur til að líta eftir slíkum hleðslum.