Hengilssvæðið er virkt eldfjallasvæði og bæði dularfullt og heillandi, með giljum, grösugum leynidölum, hraunum og sléttum, skriðum, hellum, lækjum og bæði heitum og köldum laugum. Hengilssvæðið er gríðarlega öflugt háhitasvæði og sjást merki þess víða í landslaginu og einkum í formi gufustrókanna sem blása dag og nótt. Hæsti punktur Hengilsins kallast Vörðu-Skeggi og þaðan er fallegt útsýni í allar áttir, einkum til Bláfjalla, höfuðborgarsvæðisins og fjallanna frá Esjunni í vestri til Skjaldbreiðar, Langjökuls og fjallanna austur af Þingvallasvæðinu. Leiðin á Vörðu-Skeggja í Wappinu er upp Sleggjubeinsskarðið og um hinn grösuga Innstadal, upp með rjúkandi Hveragili og eftir móbergshryggjum allt upp á Vörðu-Skeggja. Í bakaleiðinni er farið eftir Sleggju, löngum hrygg sem liggur eins og rani úr Henglinum, þaðan aftur niður í Sleggjubeinsskarð og á upphafsstað. Þessi leið er á sumrin þægileg flestum sem þola göngur af þessari vegalengd og hækkun. Á veturna þarf fólk hins vegar að vera vel búið og með brodda og ísöxi í bakpokanum því að aðstæður geta orðið erfiðar sökum klaka og harðfennis. Hér á eftir eru nokkrir fróðleiksmolar úr leiðarlýsingunni á Vörðu-Skeggja í Wapp-Walking app.

 

 

 

 

Hinn grösugi Innstidalur hefur eflaust verið notaður sem afrétt frá fyrstu árum Íslandsbyggðar. Hann er skjólsæll og gróðursældin er meiri en hæðin yfir sjávarmáli bendir til en hann er í 420−440 m hæð yfir sjó. Til er saga af nauti sem átti að hafa drepist á þessum slóðum og gengið aftur. Var það sagt mjög skætt og óvinnandi – fnæsandi og illúðlegt og með þarma úr mönnum og dýrum á hornunum. Sagan segir að maður einn hafi eitt sinn lenti í nautinu en gat flúið upp á klett eftir að hesturinn drapst. Hann reyndi að skjóta á nautið en vann ekki á því fyrr en hann hafði slitið sinkhnapp af jakka sínum og notað í stað byssukúlu.

 

 

 

Skálinn í Innstadal heitir Lindarbær en hann er í einkaeigu. Austan megin við Lindarbæ er litríkt Hveragilið með Gíslahver sem er einn öflugasti hver landsins. Árið 1934 skrifaði Gísli Halldórsson, þá ungur verkfræðingur, um þá framtíðarsýn að virkja gilið til raforkuframleiðslu og til að anna heitavatnsþörf höfuðborgarsvæðisins. Á þessum tíma var lítil reynsla komin á hagnýtingu gufuafls til að búa til rafmagn og flestir töldu það óráð. Í umræðunni sem fylgdi voru notaðir alls kyns pólitískir útúrsnúningar og árið 1937 hvarf hverinn tímabundið þegar skriða féll á hann. Þá var mikið grín gert að Gísla og hverinn nefndur Gíslahver í háðungarskyni. Sumir héldu jafnvel að gufuorkan væri farin úr Henglinum. Nafnið festist við hverinn en aldrei kom til þess að svæðið yrði virkjað þó að það hafi alla tíð verið mjög öflugt. Hægt er að ganga niður í gilið en fólk verður þó að gæta þess að stíga ekki ofan í heita hveri og einnig að traðka ekki niður fallegar jarðmyndanir.

 

 

 

Ofan af Sleggju sést niður í Engidal og Marardal. Báðir dalir nýttust vel til beitar en Marardalur þó betur því að hann er lokaður allan hringinn nema á einum stað. Þar var hlaðið fyrir og því hægt að koma í veg fyrir að skepnur kæmust út. Einnig má finna litla skúta í dalnum þar sem smalar eiga að hafa haldið til. Í Marardal er talið að síðustu hreindýrin sem héldu til suðvestanlands hafi verið drepin, líklega árið 1925. Hreindýrahjörð hafði verið sleppt skammt frá Hafnarfirði árið 1777 og þau héldu til á Reykjanesskaga, í Bláfjöllum og á Hengilssvæðinu í 150 ár. Sagan segir að skotglaður veiðimaður hafi náð að króa síðustu dýrin af í Marardal og ekki hætt fyrr en hann var búinn að skjóta þau öll. Þess skal getið að hann vissi ekki að um síðustu dýrin var að ræða.