Flestir bæir á Íslandi eiga sitt fjall. Akrafjall er tvímælalaust fjall Akurnesinga. Akrafjall er sporöskjulaga fjallbunga, aflangt nokkuð frá suðvestri til norðausturs. Það myndaðist á þeim tíma sem Hafnarfjallseldstöðin var virk og mótaðist af jöklum ísaldar. Akrafjall er rétt tæplega 8 km langt og 5 km breitt þar sem það er breiðast. Hæsti tindurinn er Geirmundartindur 643 m og næsthæstur er Háihnúkur 555 m. Milli tindanna er dalur sem myndaðist við jökulrof, Berjadalur, og úr honum rennur Berjadalsá. Við rætur fjallsins er lítil stífla og vatnslón. Úr þessu lóni kemur kalda vatnið sem rennur úr krönum bæjarbúa. Ganga á Akrafjall er við hæfi flestra í sæmilegu formi á sumrin og haustin. Hækkunin er að mestu leyti þægileg að Guðfinnuþúfu en leiðin verður aðeins brattari og erfiðari eftir það að Geirmundartindi. Á veturna þarf að hafa jöklabrodda og ísöxi með í farteskinu.

Upplagt er að ganga á Akrafjallið með Wapp Walking app og fræðast um leið um umhverfið og söguna. Eftir göngu er tilvalið að skella sér í sund á Akranesi eða í heitu sturtuna á Langasandi.

 

útsýni af akrafjalli sundin

 

gestabók geirmundartindur akrafjall

 

Akrafjall geirmundartindur