Hjálpleysa er dalur á mörkum Valla og Skriðdals. Leiðin liggur upp í dalinn og að litlum hellisskúta sem heitir Valtýshellir. Hellirinn er nærri lækjarsprænu. Í hellisskútanum á „Valtýr á grænni treyju“ að hafa hafst við eftir að hann rændi og myrti sendimann Péturs sýslumanns á Ketilsstöðum á fyrri hluta 18. aldar. Hann stal mat af bæjum og hélt sig annars fjarri mannabyggðum og fjölförnum vegum á leið sinni vestur á Barðaströnd með ránsfenginn. Sendimaðurinn hafði fundist áður en hann lést og náði að segja að Valtýr á grænni treyju hefði framið ódæðið en dó strax í kjölfarið af hnífsstungunum 18 sem Valtýr hafði veitt honum. Eini maðurinn í sveitinni sem hét Valtýr var bóndi á Eyjólfsstöðum og var hann tekinn í yfirheyrslur og pyntaður en játaði aldrei. Hann var engu að síður líflátinn. Fimmtán árum síðar komst upp um hinn rétta Valtý og var hann einnig líflátinn eftir að hafa játað verknaðinn. Kom fram í yfirheyrslunum að hann ráðlagði engum að fara fjallveginn um Hjálpleysu.  Gengið er frá þjóðvegi austan (utan) við Gilsá, farið framhjá rústum Hátúna en það var myndarbýli í árdaga Íslandsbyggðar og er sagt að þar hafi verið 18 hurðir á járnum. Sjást þar enn merki um hlaðna grjótgarða. Á 19. öld fannst þar fornt sverð sem var brætt upp og úr því smíðaðar skaflaskeifur og aðrir þarfir hlutir. Áfram er gengið og komið að sléttum grasvelli sem kallast Kálfavellir. Valtýshellir er lítill skúti innan við lítinn urðarrana skammt innan og norðan af Hjálpleysuvatni. Hólkur með gestabók og stimpli er rétt innan við skútann.

Gönguleiðin er í Wapp-Walking app og er í boði Ungmennafélags Íslands.

Gangan að Valtýshelli er skilgreind sem ein af perlum Fljótsdalshéraðs. Ferðafélag Fljótsdalshéraðs hefur veg og vanda af vali á perlunum og gönguleiðunum. Við hverja perlu eða áfangastað er hólkur sem inniheldur upplýsingar um staðinn ásamt gestabók og stimpli. Með því að stimpla í sérstakt kort sem er til sölu á nokkrum stöðum og staðfesta þannig komu sína á áfangastaðinn er hægt að taka þátt í skemmtilegum gönguleik á sumrin. Hvert kort þarf að vera með stimpla frá níu stöðum. Kortið fæst í Egilsstaðastofu á tjaldsvæðinu á Egilsstöðum, hjá Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs, Tjarnarási 8, og Upplýsingamiðstöðinni Egilsstöðum og í gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Skriðuklaustri.