Þyrill er formfagur og tilkomumikill þar sem hann stendur ofan við Þyrilsnesið í botni Hvalfjarðar. Hamraveggirnir rísa hátt yfir umhverfið og undirstrika hversu ólíkur Þyrill er öðrum fjöllum á þessum slóðum. Gangan er ekki erfið upp á topp og útsýnið er stórfenglegt yfir Botnsdalinn og Hvalfjörðinn allan. Upphafsstaður göngu er ágætlega merktur skammt frá Brunná og gott pláss fyrir bíla við veginn. Þar er myndarleg varða sem Guðjón Kristinsson frá Dröngum á Ströndum hlóð árið 2000.
Efst á Þyrli má segja að sé stúkusæti yfir sögusvið einnar af Íslendingasögunum. Harðar saga og Hólmverja gerist í Hvalfirði og fjallar um þá fóstbræður Hörð og Geir sem koma sér í ýmis vandræði og enda að lokum í útlegð í Geirshólma undan Þyrilsnesi. Þar bjuggu þeir um sig með fjölmennu liði og gerðu strandhögg víða um sveitir uns bændur náðu að ginna þá í land í Þyrilsnesi og vega þá báða ásamt megninu af þeirra liði. Helga, kona Harðar, og tveir synir komust hins vegar undan með því að synda til lands að ósum Bláskeggsár og klífa svo upp Helguskarð á Þyrli og þaðan yfir í Skorradal.
Prófaðu að fara á Þyril í fylgd Wapp – Walking app og njóttu þess að lesa þessa og fleiri fróðleiksmola á leiðinni.
Leave A Comment