Keilir er einkennisfjall Voga og Reykjanes Geopark. Hin sérstaka keilulaga lögun fjallsins gerir það mjög áberandi og það sést víða að. Keilir er móbergsfjall og hefur myndast á ísöld við gos undir jökli án þess að gosið næði að brjótast upp úr jöklinum. Til að komast að Keili þarf að keyra Reykjanesbraut (nr. 41) og beygja af veginum á sama stað og ef ætlunin væri að fara Vatnsleysustrandarveg (nr. 420) en vegurinn að Keili er við sömu gatnamót en fer í gagnstæða átt. Áberandi skilti við veginn vísar á Keili. Sjálfur vegurinn er grófur og holóttur malarvegur. Hann er þó fær flestum bílum á sumrin en minni bíla þarf að keyra mjög hægt þessa rúmu 8 km að bílastæðinu við nyrðri enda Oddafells.  Gangan sjálf er við flestra hæfi og Keilir er alls ekki jafn erfiður og brattur og gæti sýnst úr fjarlægð. Byrjað er á því að ganga nokkuð greiðfæra 3 km leið að fjallinu og svo tekur við ganga upp eftir slóðum í skriðunum í hlíðum Keilis. Fólk rennur aðeins til í skriðunum og hugsanlega þarf að nota hendurnar líka á nokkrum stöðum svo að lofthræddir gætu stífnað en flestir eiga að komast upp með góðri hvatningu samferðafólks. Á veturna er malarvegurinn að Keili yfirleitt ófær en ef fólk hefur tækifæri til að klífa Keili á veturna er vissara að hafa öxi og jöklabrodda með í för.

Leiðin á Keili er í Wapp – Walking app og er í boði Icewear.

 

Keilir

Upp Keili