Þessi leið er mjög falleg. Bæði er víðsýnt af toppnum og einnig er margt að skoða á leiðinni. Þorbjörn (243m) eða Þorbjarnarfell eins og það mun hafa heitið eitt sinn er bæjarfjall Grindavíkur og mjög áberandi frá Reykjanesbrautinni þar sem það rís yfir gufustrókum Svartsengis, sem fleiri þekkja reyndar sem svæði Bláa lónsins. Fellið myndaðist í tveimur goshrinum á aðskildum ísaldartímabilum og sérstaklega má sjá merki þess í sigdæld sem gengur í gegnum fellið. Nokkrar leiðir eru upp á Þorbjörn. Auðveldast er að ganga upp vegaslóðann austan megin í fjallinu, en við förum norðan megin og leggjum upp frá Baðsvöllum. Þegar komið er upp má sjá ummerki braggabyggðar frá því á stríðsárunum, skoða útsýnið og fara ofan í hina djúpu Þjófagjá. Svo er gengið niður sunnan megin og meðfram fellinu að vestanverðu til baka á upphafsstað.
Leiðin er fær flestum og þar er snjólétt á veturna miðað við flesta staði á landinu. Það er upplagt að fara í Bláa lónið eða sund í Grindavík að lokinni göngu.

Drífðu þig á Þorbjörn í leiðsögn Wapp-Walking app og þú færð fullt af fróðleik í farteskið. Leiðsögnin er í boði Reykjanes Geopark.