Grímannsfell er hæsta fellið í landi Mosfellsbæjar og nokkuð áberandi í Mosfellsdalnum þó að það standist ekki samanburð við hina ljósu Móskarðshnúka norðan megin dalsins. Þetta er þægileg leið til að komast á Stórhól og hefst gangan skammt frá tóftum Bringna en þar var búið fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Á leiðinni má sjá Helgufoss og ónefndan foss í hlíðinni og virða fyrir sér fallegt útsýnið yfir Mosfellsheiðina og fjöllin vestur, norður og suður af heiðinni. Farið er yfir Köldukvísl á göngubrú en minni læki þarf að stikla. Gangan hæfir flestum sem eru í sæmilegu formi en á veturna þarf að hafa með sér hálkubrodda enda getur auðveldlega orðið hált í vetraraðstæðum. Á vetrarkvöldum getur hins vegar alltaf sést til norðurljósa og þá getur verið fallegt að fara um þessar slóðir.

Búið var í Bringum frá árinu 1856 og fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Bærinn stóð ofarlega í túninu en einnig má sjá tóftir útihúsa þar neðan af. Bærinn var stundum nefndur Gullbringur á fyrri tímum en Bringur voru það nafn sem mest var notað. Bærinn varð strax þekktur þegar hópur vermanna á leið á vorvertíð komst í hann krappan í norðanstórhríð á Mosfellsheiði í mars árið 1857. Urðu sex menn úti en átta menn komust í Bringur og fengu aðhlynningu. Þá var einnig fjallað um bæinn rúmum 100 árum síðar, árið 1974, þegar hann var einn tökustaða fyrir sjónvarpsmynd um Lénharð fógeta. Var myndin reyndar umdeild fyrir þær sakir að framleiðslan fór langt fram úr fjárhagsáætlunum. Árið 2014 var 18,6 hektara svæði úr landi jarðarinnar friðlýst sem fólkvangur. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda mikilvægar náttúru- og söguminjar og um leið tryggja aðgengi almennings að svæðinu til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu.

 

Mosfellsheiðin er víðlend, og austan við Grímannsfellið var áður meginleiðin til Þingvalla sem var gerð vagnfær fyrir komu Friðriks VIII. Danakonungs árið 1907. Eftir það var vegurinn kallaður konungsvegur og var nýttur sem bílvegur eftir að bílaöldin gekk í garð. Fyrir Alþingishátíðina 1930 var lagður bílvegur um Mosfellsdal til Þingvalla og eftir það var hætt að nota konungsveginn. Hann er þó ennþá fær og nýtist sem góð reiðleið og gönguleið.