Snæfell er hæsta fjall utan jökla á Íslandi, 1833 m á hæð. Það er svipmikið og áberandi og sést víða að. Sérstaklega er tilkomumikið að sjá það bera við himin frá Fljótsdalshéraði. Óhætt er að fullyrða að toppur Snæfells sé einn allra besti útsýnisstaður landsins þegar skyggni er gott. Sést þá yfir ótrúlega stóran hluta landsins. Ganga á Snæfell er á færi flestra sem eru í sæmilegri þjálfun og leiðin í Wappinu liggur að sunnanverðu upp hryggi og axlir sem gera hækkunina þægilega. Rétt er að benda á að alltaf er gengið í snjó hluta leiðarinnar og þá þarf að fara einn brattan malarhrygg og því getur verið gott að hafa göngustaf til að styðja sig við. Þá ber að taka fram að veður getur breyst snögglega á Snæfelli og því þarf ávallt að vera vel búinn, með góðan skjólfatnað og ríflegt nesti. Einnig þarf að gæta þess að halda sig nokkurn veginn á leiðinni því að nokkrir skriðjöklar teygja sig niður hlíðarnar og þar er hætta á því að lenda í jökulsprungum. Ef ætlunin er að fara upp á fjallaskíðum er farið að norðanverðu og ekki óhætt að gera það án fylgdar vegna jökulsprungna.
Snæfellsstofa og upplýsingamiðstöðvar á svæðinu veita upplýsingar um þá sem bjóða upp á leiðsögn á Snæfell. Vegurinn að Snæfelli er ekki fær allt árið, opnar venjulega ekki fyrr en í byrjun júlí og ráðlegt er að vera ekki á lágum bíl á þessari leið. Yfirleitt er vegurinn opinn fram í september eða október, en það fer eftir veðurfari hvers árs. Mælt er með því að ræða við landverði í Snæfellsskála áður en haldið er á fjallið því að þeir hafa yfirleitt góðar upplýsingar um aðstæður á hverjum tíma. Landverðir eru í Snæfellsskála frá opnun vegarins á sumrin og út september. Utan þess tíma er hægt að fá upplýsingar í Snæfellsstofu (snaefellsstofa@vjp.is/sími: 470-0840).

Leiðin er stikuð á fyrri helmingnum en ekki eftir að komiið er upp að snjólínu. Efst er hólkur þar sem áður var gestabók en hólkurinn er oft á kafi í snjó þannig að gestabók og stimpill eru nú í Snæfellsskála og hægt að skrifa í hana eftir að komið er niður. Allir sem ganga á Snæfell eru beðnir um að skrifa nafn sitt á lista sem hangir á innanverðri útidyrahurðinni í Snæfellsskála. Snæfell er í Vatnajökulsþjóðgarði sem er einn stærsti þjóðgarður í Evrópu og þekur um 14% af Íslandi. Þjóðgarðar eru friðlýst svæði sem teljast sérstæð vegna náttúrufars eða sögulegrar helgi. Sérstaða Vatnajökulsþjóðgarðs felst einkum í fjölbreytilegum landslagsformum sem samspil eldvirkni, jarðhita, jökuls og vatnsfalla hefur skapað.

Gangan á Snæfell er skilgreind sem ein af perlum Fljótsdalshéraðs. Ferðafélag Fljótsdalshéraðs hefur veg og vanda af vali á perlunum og gönguleiðunum. Við hverja perlu eða áfangastað er hólkur sem inniheldur upplýsingar um staðinn ásamt gestabók og stimpli. Með því að stimpla í sérstakt kort sem er til sölu á nokkrum stöðum og staðfesta þannig komu sína á áfangastaðinn er hægt að taka þátt í skemmtilegum gönguleik á sumrin. Hvert kort þarf að vera með stimpla frá níu stöðum. Kortið fæst í Egilsstaðastofu á tjaldsvæðinu á Egilsstöðum, hjá Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs, Tjarnarási 8, Upplýsingamiðstöðinni Egilsstöðum og í Snæfellsstofu við Skriðuklaustur.