Gönguleiðin úr Botnsdal í Skorradal kallast Síldarmannagötur og er nokkuð þekkt meðal göngufólks og upplagt að fara hana með Wappinu.  Hún þykir þægileg og er stundum farin fram og til baka á einum degi. Útsýnið yfir Botnsvoginn og Hvalfjörðinn og einnig yfir Skorradalinn og Skorradalsvatnið er undurfallegt og auðvelt að gleyma sér yfir því þegar skyggni er gott. Í lýsingunni eru frásagnir, upplýsingar og sögur sem auðga upplifunina af því að ganga þessa fallegu leið en mun ítarlegri lýsing leiðarinnar er í bókinni „Átta gönguleiðir í nágrenni Reykjavíkur“ sem Forlagið gaf út árið 2014. Leiðin liggur frá einum stað á annan þannig að ef ætlunin er að ganga aftur til baka þarf að tvöfalda vegalengdina. Á veturna getur orðið snjóþungt á þessu svæði, eins og víðar á landinu, sérstaklega eftir því sem fjær dregur sjó, sem getur torveldað för og á vorin og fyrri hluta sumars geta verið miklar aurbleytur þangað til frost er farið úr jörðu. Annars er leiðin yfirleitt þægileg yfirferðar og að mestu leyti á grófum götum eða troðningum. Stikla þarf yfir læki á leiðinni en ekki þarf að vaða nema í miklum vatnavöxtum. Hægt er að lengja leiðina með því að ganga út með Þyrli og virða fyrir sér útsýnið. Best er að ganga út með Þyrli sunnan megin og sömu leið til baka.

 

 

Efst í Síldarmannabrekkum er Reiðskarð og þaðan er hægt að lengja leiðina með því að ganga eftir fjallinu í vesturátt. Er það bæði greiðfær og þægileg ganga og ekkert síðra að sjá lagskipta kletta Þyrilsins í nærmynd en fallegan Hvalfjörðinn breiða úr sér fyrir neðan. Best er að ganga meðfram brúninni sunnan megin og er magnað að sjá hvernig útsýnið breytist smátt og smátt. Rétt er að halda sig frá fjallsbrúnum ef fréttist af brúðkaupi að samnefndum bæ (Þyrli) undir fjallinu. Þjóðsaga segir nefnilega að fjallið muni hrynja yfir bæinn ef brúðkaup sjö bræðra verður haldið þar samtímis. Það verður að teljast ólíklegt að þessar aðstæður komi upp en allur er varinn góður.

 

 

 

Þar sem gengið er í Grjóthlíð er fallegt útsýni niður Litlasandsdalinn, á Miðsand og út Hvalfjörðinn þar sem Akrafjallið stendur yst. Á Miðsandi eru töluvert margar byggingar en þar voru mikil umsvif í seinna stríði í tengslum við hernaðarbröltið og seinna tóku Hvalur hf. og Olíufélagið við svæðinu og höfðu mikið umleikis fram eftir síðustu öld.

Botnsheiði liggur milli Skorradals að norðan og Hvalfjarðar að sunnan, Brekkukambs að vestan og Veggja að austan. Botnsheiðin er fremur flatlend og skiptast á melar og votlendi. Gott útsýni er frá Tvívörðuhæðum yfir að Hvalfelli og Botnssúlum. Jafnframt sést í Hvalvatn og Breiðifoss er eins og hvítur blettur norðan megin við Hvalfell. Veggir og Kvígindisfell eru norðan og austan af Hvalvatni og í baksýn sést til jöklanna. Í norðri má sjá í Baulu og Okið og til fleiri fjalla.

Bærinn Vatnshorn fór í eyði árið 1961. Hann kemur við sögu í bókinni Íslenskum aðli en Þórbergur Þórðarson kom þar við eftir volk á Botnsheiði og naut aðhlynningar. Einnig er minnst á bæinn í Harðar sögu og Hólmverja þegar Geir drepur tvo fjósamenn og stelur nauti sem hann teymir yfir í Botnsdal. Þá kemur bærinn við sögu í Laxdælu því að þar bjó Helgi Harðbeinsson sem hafði verið með í aðförinni að Bolla Þorleikssyni og veitt honum banasárið. Bolli var eins og kunnugt er kvæntur Guðrúnu Ósvífursdóttur. Víginu var snúið upp á Helga þótt hann hefði ekki verið í forsvari fyrir aðförina og fór svo að hann var veginn af sonum Bolla og Guðrúnar í hefndarskyni fyrir víg föður þeirra. Árið 1995 unnu Skógrækt ríkisins og Skorradalshreppur að því að kaupa jörðina Vatnshorn til að stunda skógrækt og koma í veg fyrir að jörðinni yrði skipt upp í sumarbústaðalóðir.