Samkvæmt fréttum á að taka upp nýja Hollywood mynd á næstu misserum í Vatnsdal og á Vatnsnesi á Norðurlandi. Tildrögin eru síðasta aftaka á Íslandi sem fór fram á Þrístöpum við Vatnsdalshóla og útgáfa bókarinnar Burial Rites um málið eftir rithöfund sem heitir Hannah Kent. Áhugasamir geta farið að Þrístöpum með hjálp Wapp – Walking app og rakið sig í gegnum sögu málsins. Svona hljóðar inngangurinn að leiðinni í Wappinu:
„Margir Íslendingar kannast við Þrístapa. Það kemur ekki til af góðu því að þetta er einn þekktasti aftökustaður landsins og einmitt þar fór síðast fram aftaka á Íslandi og um leið ein sú alræmdasta, refsingin fyrir morðið á Natani Ketilssyni. Við rekjum okkur í gegnum aðdraganda hennar og eftirmála um leið og við göngum að aftökustaðnum. Á bílastæðinu við upphaf göngunnar hefur verið komið upp skilti með fróðleik um staðinn og síðustu aftökuna. Gönguleiðin er örstutt, að mestu leyti á jafnsléttu og flestir fara hana án nokkurrar áreynslu. Það er helst hætta á því að stíga í bleytu eða hrossaskít á leiðinni og á veturna getur verið snjór og klaki.”
Leave A Comment