Kofrinn er bæjarfjall Súðavíkur og leiðin þangað upp er í Wapp – Walking app. Tindurinn er mjög fallegur á að líta, áberandi þar sem hann rís upp af fjallsbrúninni og sést víða úr Álftafirði. Hægt er að mæla með því sérstaklega að horfa á hann frá útsýnisstaðnum á Kambsnesi. Heimafólk þekkir vel kraftinn úr Kofra og segjast einhverjir finna fyrir honum uppi á toppi. Sagt er frá því í þjóðsögum að Steinamóðir sé staðsett í Kofra, sem getur af sér náttúrusteina. Steinamóðir er hellusteinn sem er holur að innan og þar verða til fleiri steinar.  Sérstaklega er ráðlagt að fara upp að Kofra á Jónsmessunótt og sagt að þá sé hægt að finna óskasteina við tjörn á tindinum og aðra fáséða hluti. Hvort sem fólk skynjar kraftinn eða ekki þá er geysilega víðsýnt og fjölbreytilegt útsýni ofan af toppnum. Sést beint niður að þorpinu í Súðavík, um Álftafjörðinn, Ísafjarðardjúpið og yfir á Snæfjallaströnd og á Drangajökul.

Gönguleiðin á Kofra er nokkuð brött og grýtt á kafla í gilinu. Sérstaklega þarf að gæta þess að hafa ekki of langt bil á milli fremsta og aftasta manns því að meginhættan á leiðinni er hrun frá grjóti sem göngufólkið sjálft ýtir af stað óafvitandi. Ef hópar eru talsvert þéttir og ekki of stórir á ekki að vera hætta frá grjóthruni. Leiðin er nokkuð á fótinn og þeim sem eru lofthræddir er ráðlagt að fara ekki þessa leið.