Gálgahraun er sérstæð hraunspilda á Álftanesi, nyrst í Garðahrauni við Lambhúsatjörn. Hraunið er komið úr Búrfelli ofan Hafnarfjarðar. Það er hluti af miklu hrauni sem þaðan rann fyrir um 8.000 árum og nefnist einu nafni Búrfellshraun. Aðrir hlutar hraunsins eru t.d. Garðahraun og Hafnarfjarðarhraun. Gálgahraun er kennt við háan, klofinn hraundranga, Gálgaklett, þar sem sagnir segja að sakamenn hafi verið hengdir og dysjaðir. Gálgahraun er mjög sérstakt útlits, bæði úfið og hrikalegt. Talið er að glóandi hraunstraumur hafi runnið út á mýrlendi sem þarna hefur verið, suður af Lambhúsatjörn og vatnsgufurnar sprengt það allt í sundur, gert í það gíga og stórar gjár en hrúgað upp strýtum og klettum á öðrum stöðum. Í Gálgahrauni leynast margir misjafnlega stórir hellisskútar, bollar, gjár og þess háttar skúmaskot. Um Gálgahraun liggja gamlar götur en sú þekktasta er Fógetastígur og liggur gönguleið í Wapp-Walking app um hana og svo er tekinn útúrdúr að Garðastekk og þaðan í átt að Lambhúsatjörn, inn á Sakamannastíg og er hann þræddur að Gálgaklettum. Eftir það verður leiðin örlítið torsóttari meðfram strandlengjunni, Eskinesi og aftur á upphafsstað en engu að síður flestum fær. Þeir sem vilja þægilegri leið geta farið aftur sömu leið til baka á Fógetastíg og fylgt henni á upphafsstað. Fjölmargir fróðleiksmolar eru á þessari leið um sögu og náttúru sem glæða allt umhverfið lífi. Kíktu á þessa náttúruperlu í Garðabæ í fylgd Wapp-Walking app.
Leiðin um Fógetastíg í Wapp-Walking app er í boði Garðabæjar.
Leave A Comment