Margir hafa lesið um Bjart í Sumarhúsum og aðrar eftirminnilegar sögupersónur sem bjuggu í litlum kotbýlum á heiðum landsins. Nú er hægt að komast í návígi við aðstæður þeirra og búið að gefa út heiðarbýlahring í Wappinu. Þessi skemmtilegi hringur er rétt rúmir 38 km og fer um hlaðið á átta heiðarbýlum. Gott er að skipta göngunni í tvær dagleiðir og hafa höfuðstöðvar við Sænautasel. Annan daginn má taka Veturhús, Víðirhóla, Háls, Hneflasel og jafnvel Heiðarsel. Hinn daginn má taka Heiðarsel ef það er ekki tekið hinn daginn og Netsel og Grunnavatn.

Eins og fyrr sagði er best að hafa bækistöð í Sænautaseli enda er þar gott tjaldsvæði með allri þjónustu og einnig er hægt að kaupa gistingu í gamla bænum. Finna má fleiri heiðarbýli á Jökuldals- og Vopnafjarðarheiðum og hægt að fá nánari upplýsingar um þau á vefsíðu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs www.ferdaf.is auk allra upplýsinga sem birtar eru í þessari leiðarlýsingu enda var hún unnin í samstarfi við Ferðafélagið.
Svæðið er þægilegt til göngu, vel gróið og aldrei grýtt að ráði en þýft á nokkrum stöðum. Segja má að meginhindrunin séu mýrar, en þar sem þær voru grundvöllur sprettu á heiðum þá voru kotin í grennd við mýrarbleytur. Gott er að taka vaðskó með sér vegna mýrarbleytunnar og til að vaða neðan við Heiðarsel.

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs og Kaupvangur menningar- og fræðasetur Vopnfirðinga hafa sameinast um að byggja upp menningartengda ferðaþjónustu á Jökuldalsheiðinni og heiðunum þar í kring. Hjá hverju býli er hólkur, sem inniheldur upplýsingar um býlið, ábúendur og sögur tengdar því, gestabók og stimpill.
Kort til að safna stimplum er til sölu í Sænautaseli og á Upplýsingamiðstöðum á Egilsstöðum og Vopnafirði og á skrifstofu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, Tjarnarási 8, Egilsstöðum. Veitt verður viðurkenning þeim, sem skila inn korti með 10 stimplum og lenda þeir í potti, sem dregið er úr í september ár hvert.