Við Rauðasand eru fjölbreyttar gönguleiðir og ein þeirra er að tóftum bæjarins Sjöundár. Sjöundá er líklega þekktasta bæjarnafnið við Rauðasand í seinni tíð þrátt fyrir að búskapur þar hafi lagst af árið 1921. Ástæður þessa eru morðmál sem komu upp árið 1802 og Gunnar Gunnarsson gerði skil í bók sinni Svartfugl sem kom fyrst út árið 1938 í Danmörku. Bókin hlaut mjög góðar viðtökur, þykir með betri bókum Gunnars og hefur verið þýdd á nokkur tungumál. Heiti jarðarinnar er sérstakt. Í sveitinni er sagt að nafnið taki til þess að áin er sjöunda vatnsfallið á Rauðasandi, talið frá vestri til austurs. Sjöundárdalur er grösugur en þýfður og þykir því erfiður til gangs. Úr dalnum er gott útsýni yfir allan Rauðasand og sést alveg að Látrabjargi. Gönguleiðin er ekki mjög krefjandi og er gengið á slóða alla leiðina. Slóðinn getur þó verið háll í rigningu.

Samfelld búseta var á bænum um aldir en síðasti ábúandi flutti á brott árið 1921 eins og fyrr sagði. Ekki eru til heimildir af öllum bændum á Sjöundá en til eru frásagnir meðal annars af Jóni bónda Ólafssyni sem sat Sjöundá 1860–1883. Hann stóð myndarlega að búskapnum og stækkaði búið jafnt og þétt á meðan hann var bóndi á Sjöundá. Einnig reri hann til fiskjar á fjögurra manna bátnum Blíðfara úr verstöðvum á útvíkum og kom fyrir að hann reri frá Bæjarvík á Sjöundá ef skilyrði voru góð en lending er þar varasöm í sjógangi. Seinna eignaðist hann sex manna bátinn Skrauta og fór þá í hákarlalegur frá Sjöundá þegar vel viðraði. Skrauti fékk nafn sitt af því að Jón málaði einhvern hluta bátsins grænan en þá var óalgengt að nota annað en svarta tjöru til að bera á báta og skip.

Jón var hjátrúarfullur eins og margir aðrir og trúði því að ef veður væri vont á Kyndilmessu þann 2. febrúar þá vissi það á gott. Kyndilmessa er haldin hátíðleg af því að þá eru liðnir 40 dagar frá fæðingardegi Jesú Krists. Jón hafði það fyrir sið að sjóða hangikjöt til hátíðabrigða ef veður var eigi til útiveru þann dag. Magnús hét vinnumaður á bænum, var hrekkjóttur og þótti hangikjöt gott. Hann fór eitt sinn snemma á fætur að morgni Kyndilmessu og bar snjó á alla glugga. Þegar Jón bóndi sá ekki út um gluggana dró hann þá ályktun að úti væri blindbylur og fór þegar að sjóða hangikjöt. Þegar hann fór svo út síðar og sá að veður var með besta móti var það of seint því að kjötið var þegar farið að sjóða.

Morðin á Sjöundá voru framin vorið 1802 en margir þekkja málið í gegnum bókina Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson. Tvíbýlt var á jörðinni og bjuggu Bjarni Bjarnason og Guðrún Egilsdóttir á móti þeim Jóni Þorgrímssyni og Steinunni Sveinsdóttur. Það var á almennu vitorði í sveitinni að Bjarni hélt við Steinunni. Þann 1. apríl hvarf Jón og sagði Bjarni hann hafa hrapað í Skorarhlíðum og niður í sjó. Guðrún lést svo snögglega þann 5. júní. Vöknuðu strax grunsemdir um að ekki væri allt með felldu og þegar lík Jóns rak á land um haustið sáust áverkar á því sem taldir voru af manna völdum og auk þess vakti athygli að öll bein voru heil þrátt fyrir ætlað hrap úr Skorarhlíðum. Eftir yfirheyrslur játuðu þau drápið á mökum sínum. Hafði Bjarni banað Jóni með staf en þau kæfðu Guðrúnu í sameiningu þegar ekki dugði að gefa henni eitur. Þau voru bæði dæmd til dauða. Tókst Bjarna tvívegis að flýja úr haldi en hann var að lokum fluttur til Noregs og líflátinn þar því að ekki fannst böðull á Íslandi. Steinunn lést í hegningarhúsi í Reykjavík og var dysjuð á Skólavörðuholti. Þar stóð Steinkudys fram á 20. öld þegar bein hennar voru grafin upp og komið í vígða mold.

Leiðin að Sjöundá í Wappinu er í boði UMFÍ og kostar því notendur ekki neitt.