Ein af gönguleiðunum í Wappinu er um Landbrotshóla sem eru víðáttumesta gervigígasvæði á Íslandi. Hólarnir eru óteljandi, fjölbreytilegir að stærð, lögun og útliti. Í leiðarlýsingunni er fjallað um hvernig hólarnir urðu til fyrir rúmum þúsund árum og rakið hvernig íbúar gátu nýtt sér þá fyrr á tímum á fjölbreyttan hátt. Gangan er við flestra hæfi.

Leiðarlýsingin er unnin í samvinnu við Kötlu UNESCO Global Geopark og með styrk frá Drifting apart.

Hér að neðan er örlítið brot úr leiðarlýsingunni.

Saga svæðisins er samofin eldgosum og náttúruhamförum og eru sveitirnar því stundum nefndar Eldsveitirnar því þær eru á virkasta gosbelti jarðarinnar, sem er bæði á heitum reit og á flekaskilum. Berggrunnurinn á heiðunum hefur að mestu myndast við stórgos undir ísaldarjöklinum og þykk hraunlög runnu undir jöklinum. Efsti hluti hraunsins varð að móbergi þegar vatn úr jöklinum tætti hraunkvikuna í ösku og gjall sem síðan límdist saman í þykk móbergslög. Klettarnir ofan við Kirkjubæjarklaustur og Skaftá eru fornir sjávarhamrar sem mótuðust fyrir um 9.000 árum eða í lok síðasta kuldaskeiðs. Þá var sjávarstaðan hærri en nú er og sjávarbrimið barði bergið og mótaði í þá mynd sem við sjáum í dag. Síðan þá hefur sjávarstaðan lækkað og framburður jökulvatna og hraunflóð byggt upp víðáttumikið undirlendi, um 20 km breitt og 110 km langt.

Landbrot er sveitin sunnan Skaftár. Þar standa bæirnir í hálfhring á brún hrauns sem rann úr Eldgjá á árunum 934-938 og er talið mesta hraun sem runnið hefur í einu gosi síðastliðin 2.000 ár. Eins og nafn sveitarinnar bendir til hefur landslagið þar orðið fyrir ýmsum áföllum og hafa hraun og vötn gengið yfir sveitina frá landnámstíð en byggðin hafði þegar í Brennu-Njáls sögu hlotið nafnið Landbrot.

Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir ár, stöðuvötn eða vatnsrík setlög. Þegar heitt hraunið rennur yfir vatnsósa undirlag verða miklar gufusprengingar í hraunrásinni. Við það þeytist gjóska upp í loftið og miklir hólar hlaðast upp. Þeir nefnast gervigígar. Gervigígar eru þekktir á votlendissvæðum víðar um landið. Landbrotshólar eru víðáttumesta gervigígasvæði á Íslandi, um 50 km2 að flatarmáli. Hólarnir eru óteljandi, fjölbreytilegir að stærð, lögun og útliti og mynduðust þegar Eldgjárhraunið rann. Flestir þeirra eru gíglaga en aðrir keilulaga. Hæstur hólanna er Digriklettur í landi Hátúna, 20 m hár.

Einnig er í lýsingunni sagt frá hólum eins og Sönghóli þar sem munkarnir áttu að hafa sungið áður en þeir heimsóttu systurnar á Kirkjubæjarklaustri. Hvíluklettur var áningarstaður rétt við leiðina í Álftaver. Tunguskjól var fjárskjól fyrir fé sem var í vetrarbeit í hólunum og Myrkrastofa þar sem er myndarlegur strompur ofan í gíginn um 9-10 m á dýpt. Gluggaskerið er með myndarlegum kletti efst með gati í gegn og ef fólk skríður þar í gegn þá missir það vitið.