Ólafsskarðsvegur er ein af gömlu þekktu þjóðleiðunum og var notuð til að komast á milli Þorlákshafnar og Reykjavíkur. Á leiðinni má sjá hraun og gíginn Leiti, hinn fallega Jósepsdal, grónar grundir og útsýni yfir Suðurströndina. Leiðarlýsingin í Wappinu er krydduð sögum af Jósep smið, Ólafi bryta, skæruliðum og ýmsum öðrum fróðleik. Gönguleiðin er ekki torfær en vegalengdin þó nokkur. Ekkert vatn er á leiðinni og því þarf að bera það allt með sér. Athugið að það getur verið snjóþungt á þessari leið á veturna og getur því hentað betur að fara á gönguskíðum yfir háveturinn.
Jósepsdalur er að mestu aflokaður og þröngur. Botninn er sléttur og skriðurunnin fellin nokkuð brött en andstæðurnar í dökku móberginu, sandinum og grænum gróðurflákum eru fallegar. Á veturna er hann oft snæviþakinn enda var hann nýttur sem skíðasvæði Ármenninga á árunum eftir 1930 og fram til 1970. Skíðaskáli Ármenninga var staðsettur undir syðri Ólafsskarðshnúknum og má ennþá sjá móta fyrir undirstöðum. Raunar urðu skíðaskálar þeirra tveir þar sem sá fyrri brann og var þá reistur ennþá stærri skáli sem rúmaði 100 manns í gistingu. Auk þess voru reistir fjórir minni skálar í og við Jósepsdal af einstaklingum sem tengdust Ármanni. Fjallað er um einn þessara skála hér í leiðarlýsingunni.
Þegar komið er upp úr Ólafsskarðinu má sjá skála á vinstri hönd sem kallast Skæruliðaskáli. Skæruliðarnir var hópurinn kallaður sem stóð að byggingu Skæruliðaskálans í Ólafsskarði. Þetta var hópur iðnaðarmanna sem stundaði skíðin í Jósepsdal og dró skálinn nafn sitt af því að iðnaðarmennirnir sáu um að þrífa salernin í Ármannsskálanum eftir helgarnar og áttu í stöðugum skærum við fólk um að beina afrakstri í réttan farveg, t.d. til að minnka gulan snjó. Þó vildu þeir að afraksturinn yrði sem minnstur enda þurfti að bera úrganginn langt niður í dal. Skæruliðunum fannst vanta meira húsrými fyrir þá sem vildu gista. Þeir byggðu því skálann og tók það vel á því að þeir þurftu að halda á öllu efni upp í skarðið og mun m.a. einn þeirra hafa tekist á loft með bárujárnsplötu þegar vindhviða feykti honum af stað. Byrjað var að byggja skálann árið 1946 og nýttist hann vel, en var í reiðileysi eftir 1970 eða þangað til hópur útivistarmanna hóf að endurnýja skálann árið 2009. Ekki er ljóst með verklok.
Farið er upp á hinn fornfræga gíg Leiti, sem gaus fyrir tæpum 5.000 árum. Héðan rann hraun til vesturs um Sandskeið og Fóelluvötn og allt niður með Hólmsá þar sem Rauðhólar mynduðust, meðfram Elliðaá og niður í Elliðavog í Reykjavík. Til austurs rann það í Ölfus og líklega allt fram í sjó við Þorlákshöfn. Talið er að hraunið nái yfir 100 ferkílómetra. Á barmi gígsins má finna skemmtilegar ílangar og holar hraunmyndanir sem munu hafa myndast vegna gasútstreymis.
Áður fyrr tíðkaðist að æja með hesta og leyfa þeim að bíta í haganum á Hrossaflötum. Þar hafa menn eflaust nýtt tækifærið og sopið á brennivínspela í einhverjum tilvikum.
Leave A Comment