Ofan við hið svonefnda Melahverfi í Kjós er klettabelti og ber það hæst á tindi sem kallast Hnefi. Þægilegt er að ganga á Hnefa og hlíðar aflíðandi á leiðinni á Lokufjalli og á Hnefanum. Sést vel yfir mynni Hvalfjarðar, yfir á Akranes, höfuðborgarsvæðið og Skarðsheiðina handan fjarðarins. Upplagt er að lengja gönguna upp í hinn fallega Blikdal. Gangan er við allra hæfi en á veturna getur gagnast að vera með hálkubrodda ef harðfenni myndast í brekkunum. Athugið að það getur reynst nauðsynlegt að leggja við Tíðaskarð ef malarvegurinn að upphafsstað göngunnar er ófær. Hér er gripið niður í hluta af fróðleiknum úr leiðarlýsingunni í Wapp-Walking app.

 

 

Blikdalurinn er lengsti dalurinn sem gengur inn í Esju og er um 2 km að lengd. Dalurinn skiptist eftir Blikdalsánni sem rennur eftir honum miðjum og átti Saurbær dalinn að norðanverðu en Brautarholt að sunnanverðu. Áin skiptir um nafn í dalsmynninu og heitir eftir það Ártúnsá. Dalurinn hefur löngum verið nýttur til uppreksturs búfjár frá bæjum á Kjalarnesi og áður fyrr voru þar einnig nokkrar selstöður sem enn má sjá minjar um. Á vefsíðu Árnastofnunar er fjallað um Blikdal. Elstu rituðu heimildir um dalinn eru frá 13. öld og þar er hann nefndur Blikdalur og í fleiri heimildum eftir það. Á 18. öld virðist nafnið Bleikdalur fara á kreik og eftir það hefur dalurinn verið kallaður báðum nöfnum jöfnum höndum. Ástæður nafnanna hafa ýmist verið sóttar í ljóst berg innarlega í dalnum sem hefur lýst upp í jarðhitavirkni fyrrum í jarðsögunni eða í lífseigar fannir fyrir botni dalsins sem blikaði á þegar siglt var úti á Faxaflóa.

 

 

 

Í bók Þórunnar Valdimarsdóttur um séra Matthías Jochumsson (1835-1920) þjóðskáld er sagt undan og ofan af ástarævintýri prestsins og Guðrúnar Runólfsdóttur (1851-1923) frá Saurbæ. Matthías var prestur á Kjalarnesi á árunum 1867-1873 og þjónaði bæði kirkjunni í Brautarholti og í Saurbæ en bjó sjálfur á Móum. Árið 1872 var hann orðinn tvöfaldur ekkjumaður aðeins 37 ára gamall. Hann dvaldi tíðum í Saurbæ seinni hluta sumars 1872 og leit Guðrúnu hýru auga en hún var 16 árum yngri en hann. Þegar hún sendir honum ber í skjólu og nokkrar línur á blaði úr seli í Blikdal drífur hann sig til fundar við hana til að þakka fyrir sendinguna. Nokkuð ljóst er hvað gerðist á þeim fundi og kemur hugur Matthíasar meðal annars fram í þessu ljóði.

Hátt í dalnum, sólarsalnum,
situr stillt og þýð,
snotur, hýr og hnellin,
há og grönn og smellin
dala-drósin blíð.

Upp úr því varð leynilegt samband milli þeirra sem stóð í marga mánuði og endaði með því að hún varð barnshafandi og fæddi svo barn þeirra í janúar 1874. Matthías sagði hins vegar prestsstarfi sínu lausu og fór af landi brott áður en barnið kom í heiminn og virtist hafa verið í miklu sálarstríði um hvort hann ætti að kvænast henni. Það var hins vegar ljóst að honum var ekki sætt í embætti enda var það litið alvarlegum augum ef prestur eignaðist barn utan hjónabands. Var þetta hneyksli mikið rætt og þótti ljótur leikur hjá presti gegn stúlkunni og fjölskyldu hennar, auk þess sem bróðir hennar var mágur Matthíasar sem gerði málið enn flóknara. Matthías dvaldi í Skotlandi og Englandi um veturinn og samdi þá Lofsönginn sem síðar varð þjóðsöngur Íslands. Það var svo ekki fyrr en árið 1875 sem þau Guðrún gengu í hjónaband og eignuðust í framhaldinu 10 börn til viðbótar.

 

Þegar komið er upp á Hnefa sést vel yfir til Akrafjalls handan fjarðarins í vesturátt og í norðri má sjá Melasveit, Hvalfjarðarsveit og Skarðsheiði. Á stríðsárunum var Hvalfjörður nýttur sem skipalægi fyrir stórar skipalestir á milli Ameríku og Evrópu og mynni fjarðarins var sett kafbátagirðingum. Lágu þá allt upp í 100 skip samtímis inni á firðinum og áhafnir fengu kærkomna hvíld frá kafbátaárásum Þjóðverja. Það er öllu rólegra yfir Hvalfirði í dag og það er vel.