Hægt er að finna marga fallega gjallgíga á Íslandi og má hiklaust setja Stóru-Eldborg í flokk með þeim fallegri. Hann er stærstur fimm gíga sem mynduðust þegar gaus í sprungu í og við Geitahlíð. Þessi ganga liggur meðfram hrauntröð að Stóru-Eldborg, upp á gíginn og hringinn í kringum hann. Þaðan er farið upp á Geitahlíð og að öðrum mun eldri gíg. Ofan af Geitahlíð er fallegt útsýni og sést vel í austri og vestri hvernig hraunstraumar hafa á mismunandi tímum runnið til sjávar frá eldstöðvum í fjöllunum. Gangan sjálf er þægileg en þó er auðvitað nokkur hækkun upp á Geitahlíð. Eins og í svipuðum göngum er vissara að hafa brodda með í för á veturna. Leiðarlýsingin í Wapp-Walking app er í boði UMFÍ og því ókeypis fyrir notendur.
Hrauntröð
Við gjall- og klepragíga má oft sjá hrauntraðir. Þær myndast þegar eldglóandi hraun umhverfis gíginn storknar nema í hraunlænu eða -straumi sem enn rennur um farveginn sinn. Eftir að gosi lýkur tæmist farvegurinn og kallast hrauntröð eftir það. Hrauntraðirnar neðan við Stóru-Eldborg eru gott dæmi um heillegar hrauntraðir. Einnig má sjá heillega hrauntröð neðan við Búrfell skammt frá Heiðmörk en þar hefur hrauntröðin reyndar verið kölluð Búrfellsgjá. Þess má geta að oft verða til hellar þegar hraun renna í svona rásum. Þá storknar hraun á yfirborði en hraunstraumur heldur áfram undir yfirborðinu þar til dregur úr rennslinu.
Krýsa og Herdís
Það hefur löngum verið lenska meðal sumra landeigenda að deila um mörk jarða sinna og þess er einnig getið í þjóðsögum. Systurnar Krýsa, sem bjó í Krýsuvík, og Herdís, sem bjó í Herdísarvík, gengu lengra en margir þegar þær þráttuðu um mörk lendna sinna. Þær komu saman á Deildarhálsi sem er rétt austan við Stóru-Eldborg og höfðu í hótunum. Lagði Herdís svo á að ekkert nema loðsilungar og öfuguggar myndu veiðast í Kleifarvatni en Krýsa svaraði sem svo að skipsáhafnir í útróðri í Herdísarvík myndu drukkna í Herdísarvíkurtjörn. Lenti þeim svo saman og dóu báðar í kjölfarið. Litlu austar má finna tvær grjóthrúgur sem kallast Kerlingar og eiga að vera dysjar þeirra og þjónuðu einnig því hlutverki að vera sýslumörk en nú eru sýslumörkin enn austar og miðast við hinn svonefnda Sýslustein.
Leave A Comment