Ein af leiðunum á Snæfellsnesi er á Kothraunskúlu í Helgafellssveit. Kothraunskúla er gjallgígur sem gaus fyrir um 4000 árum og er einn af fjórum gígum sem Berserkjahraun rann frá. Þó að Kothraunskúlan sé ekki hæsta fjallið á svæðinu er mjög fallegt útsýni þaðan yfir hraunbreiðuna og í átt að Hraunsfirði, á fjöllin í kring og út á Breiðafjörðinn. Gangan tekur tiltölulega stutta stund og er greiðfær en lausamölin getur þó reynst einhverjum erfið. Athugið að fylgja slóða sem þegar er til, til þess að búa ekki til nýja, og hlífið mosanum.
Næsti bær við Kothraunskúlu var Kothraun. Síðast voru hjónin Halldór Pétursson og Kristjana Guðmundsdóttir búsett þar. Halldór lést árið 1921 og fauk bærinn ofan af ekkjunni og börnum þeirra í miklu suðvestanhvassviðri veturinn eftir. Gerðist það um miðja nótt í febrúar. Þau leituðu skjóls í Bjarnarhöfn og var vel tekið þar. Bærinn í Kothrauni var ekki endurbyggður og lauk þá búsetu í kotbýlinu sem kúrði með tún sín á milli hlíða Bjarnarhafnarfjalls og Berserkjahrauns.
Leave A Comment