
Um langan aldur nýttu menn sér samgöngukerfi landsins þar sem yfirleitt var farin stysta leið milli byggðarlaga og oft og tíðum um skörð, heiðar eða annað fjalllendi. Þessar leiðir heita allar eitthvað en ganga í dag undir samheitinu þjóðleiðir. Sumar eru við það að hverfa á meðan aðrar eru skýrar og greinilegar. Landpóstar sáu um að koma pósti á milli byggðarlaga á sínum tíma og fóru þeir um margar þessara þjóðleiða og oft var það á þeim árstíma sem fáir voru á ferli. Til eru fjölmargar frásagnir af ferðum landpóstanna og þeim raunum sem þeir lentu og það er þekkt að sumir komust ekki alla leið við það að koma bréfum og bögglum til fólks víða um landið og taka við bréfum til dreifingar.
Einar í fótspor landpóstanna á Austfjörðum
Haustið 2016 þræddi Einar Skúlason gamlar póstleiðir frá Reykjavík til Ísafjarðar í minningu gömlu landpóstanna. Nú tveimur árum síðar ætlar hann að fara póstleiðir og alfaraleiðir á milli Hafnar í Hornafirði og Borgarfjarðar eystri og leggur af stað frá Höfn mánudaginn 27. ágúst. Sem fyrr mun hann leggja áherslu á að ganga um fjöll, heiðar og skörð en þar sem gömlu leiðirnar lágu á milli bæja þá er óhjákvæmilegt að fara um láglendi öðru hvoru. Á láglendisköflunum mun hann leitast eftir því að fá far með bílum en ganga ef bílför eru ekki í boði. Einar mun ganga með viðlegubúnað (tjald og svefnpoka) en að öðru leyti treysta á greiðasemi kunnugra og ókunnugra varðandi húsaskjól ef aðstæður verða erfiðar.
Eins og fyrr sagði er þessi ganga til að heiðra minningu gömlu landpóstanna sem létu sér fátt fyrir brjósti brenna. Til þess að tengja enn frekar við minningu landpóstanna þá kemur til greina að taka með bréf til að afhenda á leiðinni á meðan ákvæði laga um póstþjónustu eru ekki brotin. Einar mun jafnframt taka niður gps hnit leiðanna og gefa valdar leiðir út í Wapp – Walking app leiðsagnarappinu á íslensku og ensku.
Áætlun gerir ráð fyrir að fara eftirfarandi fjallaleiðir:
- Almannaskarð frá Hornafirði og í Lón og Lónsheiði í Álftafjörð
- Melrakkafjall á milli Álftafjarðar og Hamarsfjarðar
- Hálsar úr Hamarsfirði í Berufjörð (ef veður er hagstætt þá gæti Veturhúsaskarð orðið fyrir valinu)
- Berufjarðarskarð frá Berufirði í Breiðdal
- Reindalsheiði úr Breiðdal í Fáskrúðsfjörð
- Stuðlaskarð frá Fáskrúðsfirði í Reyðarfjörð (skutl á Eskifjörð)
- Eskifjarðarheiði og Fönn frá Eskifirði á Mjóafjörð
- Um Gagnheiði frá Mjóafirði í Seyðisfjörð
- Hjálmárdalsheiði frá Seyðisfirði í Loðmundarfjörð
- Kækjuskörð úr Loðmundarfirði í Borgarfjörð
Hægt er að hvetja Einar áfram á Facebook síðunni: https://www.facebook.com/postleidin og ef einhver vill styrkja leiðangurinn þá er hægt að leggja inn á Wapp-Walking app ehf, kt.620615-0560. Bankauppl: 0301-26-006694. Afraksturinn fer í að fjölga leiðum í Wappinu.