Um langan aldur nýttu menn sér samgöngukerfi landsins þar sem yfirleitt var farin stysta leið milli byggðarlaga og oft og tíðum um skörð, heiðar eða annað fjalllendi. Þessar leiðir heita allar eitthvað en ganga í dag undir samheitinu þjóðleiðir. Sumar eru við það að hverfa á meðan aðrar eru skýrar og greinilegar. Landpóstar sáu um að koma pósti á milli byggðarlaga á sínum tíma og fóru þeir um margar þessara þjóðleiða og oft var það á þeim árstíma sem fáir voru á ferli. Til eru fjölmargar frásagnir af ferðum landpóstanna og þeim raunum sem þeir lentu og það er þekkt að sumir komust ekki alla leið við það að koma bréfum og bögglum til fólks víða um landið og taka við bréfum til dreifingar.
Einar í fótspor landpóstanna
Haustið 2016 þræddi Einar Skúlason gamlar póstleiðir frá Reykjavík til Ísafjarðar í minningu gömlu landpóstanna og aftur um alla Austfirðina tveimur árum síðar. Nú á aðventu 2023 mun Einar ganga gömlu póstleiðina frá Seyðisfirði til Akureyrar í anda gömlu landpóstanna með jólakort og jólakveðjur til fólks og fyrirtækja á Akureyri í farteskinu til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis (KAON). Nánari upplýsingar um fyrirkomulag söfnunar eru á vefsíðu KAON.
Vegalengd gönguleiðarinnar er ca 280 km og þar sem allra veðra er von og auk þess svartasta skammdegið þá er gert ráð fyrir að gangan taki 12-17 daga. Það fer eftir veðri og færð hversu hratt hann fer yfir. Einar gengur með gervihnattasendi á sér sem sendir staðsetningu með reglubundnu millibili og þannig getur hann einnig verið í sambandi ef eitthvað bjátar á. Hægt verður að fylgast með á korti hér að neðan hvernig ferðinni miðar, á vefsíðu KAON og á Facebook síðu viðburðarins.
Einar gengur einn og með allt á bakinu og mun tjalda þegar ekki býðst að gista í húsi. Meðal viðkomustaða verða Egilsstaðir, Fjallssel ofan Fellabæjar, Skeggjastaðir og Skjöldólfsstaðir í Jökuldal, Sænautasel á Jökuldalsheiði, Möðrudalur á Fjöllum, Reykjahlíð í Mývatnssveit, Arndísarstaðir og Fosshóll í Bárðardal, Ljósavatnsskarð, Sigríðarstaðir, mynni Fnjóskadals, yfir Vaðlaheiði og endað á Akureyri fyrir jól.