Gönguleiðin um Laugaveginn, á milli Landmannalauga og Þórsmerkur, er vinsælasta gönguleið landsins og hefur komist á lista yfir fallegustu gönguleiðir í heimi. Landslagið er ótrúlega fjölbreytt, gengið er um litskrúðug líparítsvæði, biksvört hrafntinnuhraun, hvissandi háhitasvæði, spegiltær vötn, svarta sanda og græna skóga.
Nú hefur gönguleiðin verið gefin út í Wapp-Walking app og fylgja með alls kyns upplýsingar á leiðinni. Hún skiptist í fjórar dagleiðir og gott er að hlaða leiðarlýsingunum á símann áður en farið er af stað. Dagleiðirnar um Laugaveginn eru í boði Ferðafélags Íslands og kosta því notendur ekki neitt.
Ferðafélag Íslands hóf uppbyggingu á Laugaveginum upp úr 1975. Þá hafði félagið byggt upp aðstöðu í Landmannalaugum og Þórsmörk og voru frumkvöðlar innan félagsins áhugasamir um að tengja þau svæði með gönguleið um hina stórbrotnu náttúru sem er á leiðinni. Allar götur síðan hefur félagið unnið að uppbyggingu á gönguleiðinni og þeim skálasvæðum sem eru á leiðinni. Meðal annars hefur verið stikað, merkt, sett upp upplýsingaskilti og merkingar, settar upp göngubrýr, neyðarljós, unnið í fjarskiptamálum, gefnar út leiðarlýsingar, gönguleiðabækur og kort, sáð í svæði, gróðursett, þökulagt. Skálasvæði félagsins á Laugaveginum eru nú sex talsins, Landmannalaugar, Hrafntinnusker, Álftavatn, Botnar á Emstrum, Langidalur og Húsadalur í Þórsmörk.
Allir sem ganga Laugaveginn þurfa að virða almennar umgengnisreglur, taka allt rusl með til byggða (líka klósettpappír og matarleifar) og hafa í huga að bannað er að tjalda utan merktra tjaldsvæða innan Friðlandsins að Fjallabaki.